top of page

Gelding hunda

Það er ansi algengt að hundaeigendur velti fyrir sér hvaða áhrif gelding muni hafa á hundinn sinn eða tíkina. Margir eru í þeim sporum að hafa fengið upplýsingar frá þriðja aðila, um að heppilegt gæti reynst hvolpaeigendum að huga að því snemma, að gelda hundinn sinn eða taka tíkina úr sambandi. Þá eru leiðbeiningarnar gjarnan svo, að taka þurfi hundinn úr sambandi áður en hann verði fulltíða, og tíkina áður en hún fari á fyrsta lóðarí, eða eftir annað lóðarí. Margir kappkosta við að komast í geldingu fyrir unglinga mánuðina, sem getur verið hægara sagt en gert á tímum Covid.Örvæntið ekki !


Það liggur ekkert á. Það er svo með geldingar líkt og margt í samfélaginu, að við getum slakað aðeins á og leyft okkur að læra af Covid ástandinu. Að sanka að okkur upplýsingum í rólegheitum svo að við getum tekið meðvitaða ákvörðun um velferð hundsins.


Hvað liggur að baki ákvörðuninni um að gelda hundinn/taka úr sambandi? Að mínu mati þurfum við sem gæludýraeigendur að hugsa okkur vel um þegar við hugsum um að taka dýr úr sambandi. Ákvörðunin ætti að vera upplýst, vel ígrunduð og stuðla að dýravelferð. Það þarf að hugsa sig vel um áður en tekið er heilbrigt dýr úr sambandi. En það er vegna þess að aðgerðin er stórt inngrip. Hundurinn þarf að jafna sig á líkama eftir skurðinn og aðlagast breyttri hormónastarfsemi.

Það getur tekið mjög á hundinn að fara í aðgerð sem þessa og þarf maður því að taka tillit til þess þegar um einhverskonar þjálfun er að ræða eða andlega aðstoð við hundinn. Það getur því liðið langur tími þar til hundurinn er í standi andlega til þess að takast á við sína erfiðleika á svipuðu stigi og hann var kominn á fyrir aðgerð. Það er ekki sjálfgefið að hundar komi óskaddaðir andlega úr aðgerðum. Það reynir á alla hunda að fara frá eiganda sínum og vera í kringum önnur dýr í búrum í misjöfnu ástandi. Að finna framandi lykt og vera sljór af lyfjum og vera jafnvel verkjaður eða hræddur. Ef að hann á erfitt nú þegar með að fara inn á spítala, eða að vera í kringum önnur dýr, þurfum við að gera okkur grein fyrir því, að veran á spítalanum, getur reynst dýrinu mjög þungbær.Þegar hundar fara í geldingu, gerum við ráð fyrir að þeim fari aftur í þjálfunarferlinu. Ef ég færi í inngripsmikla aðgerð, gæti ég komið þreyttari, með lægri þröskuld fyrir áreiti og erfiði, úr veikindaleyfi. Við þurfum að hugsa þetta eins fyrir gæludýrin okkar. Setjum minni kröfur á þau þegar þau eru farin að hressast líkamlega. Andlega heilsan er lengur að taka við sér. Það tekur alltaf lengri tíma að vinna í andlegri heilsu heldur en fyrir líkamleg sár að gróa.


Róast hundurinn við geldingu? Margir koma til mín og spurja ráða varðandi geldingu, hvort betra sé að skella sér í geldingu fyrir eða eftir atferlisráðgjöf eða námskeið. Þau hafi heyrt frá einhverjum hundaeiganda til margra ára, að það væri sniðugt með svona orkumikinn hund. Hund sem sýni einkenni stress og kvíða, sem mögulega sé eigandinn ekki búinn að átta sig á að hann sé að sýna. Kannski hefur eigandinn misskilið merkin og tekið þeim sem óhlýðni, eða öðru sem okkur mannfólkinu er tamt að finnast þreytandi. Þessi margreyndi hundaeigandi hafi þá nefnt það, að það væri best að gelda unghunda fyrir kynþroska, svo þeir yrðu ekki alveg kolvitlausir á gelgjuskeiðinu. Og það sé svo gasalega sniðugt til að breyta óargadýrinu sem hleypur um allt og geltir, yfir í hið rólegasta gæludýr.

Raunin er þó sú. Að rannsóknir sýna frekar framm á að hundar eigi erfitt með sig eftir aðgerðir fremur en að þeir róist. Hér er mikilvægast að skoða tímasetningar geldinga. Því að hundur sem að tekinn er úr sambandi áður en hann fer í gegnum kynþroska, getur verið að missa af svo mörgu eðlilegu, sem á sér stað í líkamanum. Hormónastarfsemi sem hundurinn fer á mis við sem framm fer á unglingaskeiði. Hann getur átt í erfiðleikum með að plömma sig í hundahópum í þessum nýstárlega líkama og aðrir rakkar geta talið ungrakkann vera tík.

Fólk sem fer á hormónabælandi lyf getur liðið á alla vegu. Táningar sem fara á hormónabælandi lyf eru að takast á við áskoranir sem að fullorðið fólk er mögulega ekki að takast á við. Að átta sig á hver maður er, ætlar að mennta sig í, hvernig líkaminn er að breytast og þær tilfinningasveiflur sem geta fylgt táningsárum. Þegar táningar fara á hormónabælandi lyf er það gert af vel ígrunduðu máli þar sem það getur haft ákveðnar afleiðingar andlega og er inngrip í líkamlegan þroska einstaklingsins. Fyrir hundana okkar er því eins farið. Það er mikið inngrip að skerða hormónaseytingu líkamans og hefur margþætt áhrif á andlega heilsu og líðan hundsins.


Sjálfsvitund einstaklinga er háð því að vita hver maður er, hvað maður stendur fyrir, hvernig maður hagar sér í ákveðnum aðstæðum og svo framvegis. Þegar við tökum stóran part frá einstaklingnum óviljugum, þá er gott að átta sig á, að það getur haft í för með sér skerta sjálfsvitund eða skerðingu á skilningi hundsins á hver hann er. Það getur smitað út frá sér í samskiptum við aðra hunda. En það eru einna algengasta ástæða þess að fólk kemur með hundana sína í atferlisráðgjöf.


Líkt og við höfum tekið fyrir hér að ofan. Þá er ferlið fyrir flesta hunda, þungt. Fyrir marga hunda er því stöðnun eða afturfarir í þjálfun og umhverfisþjálfun. Hundurinn gæti orðið aðeins eftir á um tíma í félagslegum þroska, þar sem hann missir af tækifærum á meðan hann er að takast á við bataferlið.


Fyrir suma hunda er vandinn þó á þann máta að þeir væru betur á sig komnir ef þeir myndu fara í geldingu, eftir að þeir hafa tekið út eðlilegan þroska. Orðnir fulltíða og hafa skoðað ráðgjöf til að vera viss um að ástandið sé ekki á misskilningi byggt. Þeim hundum sem líður betur eftir slíkar aðgerðir eru hundar sem eru mjög gjarnir á að geta ekki hugsað skýrt til lengri tíma (daga/vikur), ef þeir vita um tíkur eða lóðandi tíkur í margra kílómetra fjarlægð. Rökkum er eðlilegt að verða örari og óstýrilátari þegar þeir vita af lóðandi tíkum í nágrenninu. Rakkar eru þannig gerðir af náttúrunnar hendi til að stuðla að fjölgun tegundarinnar. Við þurfum að muna að vera þolinmóð þegar ástandið gengur yfir, en tíkur gefa lykt frá sér áður en þeim byrjar að blæða, og eftir. Það er hægt að tala um ca. 2 vikur fyrir og 2 vikur eftir lóðarí gefi þær frá sér lykt sem rakkar finna fyrir, en séu frjóar í um 14 daga.


Það er ansi dýrt og krefjandi að fara með hundinn í geldingu ef að ástæða hegðunar er svo ekki vegna hormóna ójafnvægis eða of mikilla hormóna. Því er góð regla að leita sér fyrst aðstoðar hundaatferlisráðgjafar/-fræðings, til að ganga úr skugga um að hundurinn sé ekki að tjá sig um eitthvað annað. Það er óalgengt að hitta hund sem á við það mikið hormóna ójafnvægi að stríða að hann þurfi á geldingu að halda. Algengara er að eigandinn þurfi leiðsögn með merkjamál hundsins, taumnotkun og samskipti. Að hundurinn sé sífellt að reyna að tjá sig um eitthvað en ekki sé á það hlustað og því brjótist hegðunin framm sem óæskilegt atferli. Atferli sem okkur sem kassalaga mannfólki finnst óþægilegt að sjá, þreytandi eða óæskileg.Er réttlætanlegt að taka hund úr sambandi vegna erfðagalla? Er siðferðislega rétt að taka hund úr sambandi sem að myndi erfa hvolpana sína að óæskilegum genum? Mun það há hvolpunum að einhverju leyti eða valda þeim skertum lífsgæðum? Mér persónulega finnst þessar spurningar vera mikilvægar þegar maður hugsar út í að gelda vegna galla. Ef að lífsgæði hvolpanna skerðast ekki ef slysagot skeði, og hvolparnir myndu vera hæfir og nothæfir til undaneldis sjálfir, er þá réttlætanlegt að skera undan dýrinu?

Ég er þeirrar skoðunar að grípa sem sjaldnast inn í líf hundsins á þennan máta. Ef að gelding er upp á borðum, þá velta fyrir sér öllum hliðum málsins. Erum við sem eigendur hundsins í stöðu til að passa að hundurinn okkar pari sig ekki saman við tík fyrir slysni? Alla jafna ætti svarið við þeirri spurningu að vera já. Við ættum að vita hvar hundurinn okkar er öllum stundum, líkt og við vitum hvar börnin okkar eru. Það ætti alltaf ábyrgur aðili að vera að annast hundinn sem getur tekist á við þær aðstæður sem mögulega geta komið upp á, líkt og með börn. En á sama tíma erum við ekki öll í jafn góðri stöðu til að takast á við þær aðstæður sem koma upp á í lífinu. Við verðum að skoða líf okkar og hundsins í heild, til að átta okkur á hvort að þessi hætta sé oft til staðar. Og ef svo er, hvort það sé hægt að breyta einhverju í okkar lífi til að koma í veg fyrir auknar líkur á slysagoti.


Pörun Langar aðeins að ræða pörun örstutt, svo ekki sé um misskilning að ræða í þeim efnum. Þegar hundar para sig saman svo úr verði hvolpar, er ekki það sama og þegar hundur riðlast í nokkrar sekúndur. Tíkur jafnt sem rakkar eiga það til að riðlast á böngsum, fólki, krökkum og hverju sem er. Í langflestum tilfellum er hundurinn að losa um andlega streitu sem hefur safnast upp. Við sjáum þessa hegðun gjarnan þegar vinir krakkanna eru í heimsókn og hundurinn byrjar að riðlast á fætinum á einu þeirra, að okkur virðist, upp úr þurru. En þá hefur hundurinn átt erfitt með aðstæður og getur ekki meir, svo hegðunin brýst út á þennan máta. Þetta er ákall hundsins eftir hjálp. Þarna er hundurinn kominn á barmi þess að ráða ekki við meira, kominn á sitt rauða svæði. Gott er að grípa inn í aðstæðurnar áður en hundurinn sínir hegðun líkt og að riðlast, en til þess að geta gripið inn í fyrr, þarf að tileinka sér skilning og notkun á merkjamáli. En ef rakki hefur hug á að makast við tík, þá sýnir hann af sér hegðun um áhuga og ákefð. Svo fer hann upp á tíkina, og festist við hana í langan tíma. Þau eru svo föst saman í um ca hálftíma, þar til náttúruna er nokkuð viss um að tilætluðum árangri hafi verið náð. Ef að tíkin er á þeim stað í tíðarhringnum að hún hafi hug á rakkanum, þá er hún líkleg til þess að bjóða rakkanum upp á sig. Að hún leyfi honum að fara upp á sig og ýti rassinum að honum áður en það skeður. Athugið að pörun getur verið sársaukafull fyrir báða aðila.


Að prófa prufugeldingu Fyrir þau ykkar sem eruð alveg viss um að hundurinn ykkar er ekki að sýna með merkjamáli einkenni stress (t.d riðlast, hlaupa um, týnast ofl), þá er hægt að hafa samband við dýralækni og biðja um að fara í prufugeldingu. Fyrir þau sem eru harð ákveðin í að gelda dýrið, þau panta tíma í venjubundna geldingu sem gerð er með svæfingu. En fyrir þau sem eru óákveðin geta hugsað málið og séð með prufugeldingu hvort að raunverulega sé það jákvætt fyrir hundinn sinn að fara í geldingu. Það er hormónagelding sem dugir í um hálft ár. Slík meðferð tekur stuttan tíma þar sem leiðbeinandi hundsins getur verið inn í viðtalsherbergi með hundinum. Lyfinu er stungið inn undir herðakambinn. Fyrir hverja er prufugeldingin? Þeir eigendur sem að telja að hundarnir sínir hagi sér á ákveðin máta vegna ofseytingu hormóna sem að hægt væri að draga úr með geldingu. Oft telja eigendurnir að hundurinn sinn sé með kynhvöt á háu stigi sem sé að vefjast fyrir hundinum við göngur eða jafnvel heima við. Þá getur verið sniðugt að ræða við dýralækni um að prófa að fara í prufugeldingu til að vera viss um að það sé svarið sem leitað var að. En eins og ávallt, bendi ég á að gott er að tala við sérfræðing á hverju sviði fyrir sig. Að ræða við atferlisráðgjafa varðandi atferli hundsins til að útiloka að um annað vandamál sé að ræða.


Stóra spurningin.

Af hverju viljum við gelda hundinn eða taka tíkina okkar úr sambandi? Er það vegna atferlisvanda sem betur væri leystur með aðstoð atferlisráðgjafa/atferlisfræðings? Er það vegna alvarlegra galla sem hvolpar hundsins gætu erft? Er það vegna þess að við erum hrædd við að slysagot geti átt sér stað? Ef já, er hægt að breyta einhverju til að draga úr þeim líkum í stað geldingar?

Er ákvörðunin vel ígrunduð og tekin í því skyni að stuðla að dýravelferð?


2,162 views0 comments

Recent Posts

See All

留言


留言功能已關閉。
bottom of page