top of page

Stress og kvíði hjá hundum. Einkenni og hvað er til ráða?

Updated: Dec 1, 2020

Langvarandi stress hefur alvarlega áhrif á bæði dýr og menn. Hundar sem upplifa daglega stress í miklu magni geta farið að sýna einkenni þess að þjást af langvarandi streitu og kvíða. Hvað mikið stress er, fer algjörlega eftir hverjum einstakling fyrir sig og aðstæðum. Þegar hundar (og menn) þjást af langvarandi streitu og/eða kvíða fara ýmiss einkenni að láta á sér kræla en það er vegna þess hversu erfitt er fyrir einstaklinginn að ná sér niður á milli stressandi/kvíðablandinna atvika. Fyrir hunda eru algeng einkenni langvarandi stress gelt á allt og ekkert, óróleiki, kjánalæti/trúðalæti, kláði, naga fæturnar, magavandi, vera tekinn í andliti með áhyggjuhrukkum og margt margt fleira.


Það sem er gott að hugsa um til að draga strax úr streitu hundsins er að draga úr öllum aðstæðum sem valda kvíða hjá hundinum. T.d draga úr: að hitta hunda, að ganga um á svæði með miklu áreiti, að fara einn út í garð (og gelta), heimsóknum ókunnugra/lítt kunnugra. Auka: svefn og hvíld (líklegt að hann þurfi hjálp við að hvílast), nag á frosnu róandi hlutum, að æfa þef í rólegheitum, að ganga á náttúrulegu svæði þar sem er lítið áreiti. Gott að hafa í huga að hafa göngutúrana eins rólega og hægt er, leyfa hundinum að þefa og lifa og njóta. Það besta sem þú getur gert fyrir hund sem er haldinn kvíða og/eða stressi er að byrja á að kynna þér vel líkamstjáningu hunda. Þá getur þú betur gert hundinum þínum grein fyrir því að hann þurfi ekki að vera einn að kljást við allar aðstæður, að þú sért alltaf reiðubúinn að benda honum á lausnir og leiðir á að minna stressi. Mörgum hundum finnst þeir þurfa að glíma við aðstæður sjálfir sem veldur þeim kvíða. Þá eru þeir óvanir á að fá viðurkenningu á að þeir geti tjáð sig. Við mannfólkið erum gjörn á að hunsa þegar hundarnir okkar segja okkur frá hinu og þessu í stað þess að svara með líkamstjáningu okkar að við séum að hlusta. Með merkjamáli bendum við hundunum á að við tókum eftir áreitinu en engin hætta sé á ferð. Um leið og hundi finnst aðstæður vera að þróast út í eitthvað sem hann geti ekki höndlað er gott að aðstoða hann með því að bjóða honum leið úr vandanum. Það er t.d þegar hundurinn sýnir merki þess að honum finnist manneskjan sem nálgast í göngutúr óþægileg, getum við boðið honum að stíga út fyrir göngustíginn og horfa á manneskjuna þaðan eða hvort hann vilji þefa á því svæði. Mögulega hefur hundurinn sýnt einkenni þess að honum finnist manneskjan óþægileg, með því að verða stífur í vöðvum, háan herðakamb, stíft skott, geispa, sleikja út um eða önnur merki. En þessi 2 seinustu eru líkleg merki ef manneskjan kemur alveg upp að hundinum og ákveður að klappa honum án hans samþykkis. Þá sýnir hann óþægindamerki með því að geispa, sleikja út um, snúa höfði frá, færa efri part frá, færa líkamann frá, setjast á rassinn, opinn munn (e.panthing) ofl.

Ef að við sleppum því að aðstoða hundinn út úr aðstæðum sem slíkum þá missum við að frábæru tækifæri til þess að láta hann vita að við skiljum hans tungumál og auka þar með hans sjálfstraust, að hann eigi möguleika að komast úr aðstæðunum en verði ekki ‘‘fangi‘‘ aðstæðna. Um leið batnar samband okkar við hundinn þar sem hann áttar sig á að við getum átt í samræðum, leiðbeint og sett mörk með jákvæðum og virðingarríkum aðferðum. Óþægindamerki hunda þegar ókunnug manneskja kemur upp að honum, sérstaklega ef þau ákveða að klappa honum án samþykkis, eru mjög algeng. Af eðlilegum ástæðum. En fyrir hundi eru þessar aðstæður mjög ókurteisar og hættulegar. Skynsamir hundar ganga ekki í beinni línu að öðrum hundum og fara ofan í frampartinn á hundinum. Skynsamir hundar eiga í samskiptum við hunda og virða það þegar hinn hundurinn biður um pláss og að hann vilji ekki endilega hittast. Skoðið næst þegar þið sjáið svona aðstæður, hvort að hundurinn sem lendir í aðstæðunum beygi höfuðið niður þegar honum er klappað á höfuðið, færir höfuðið til hliðar, horfir til hliðar, sleikir út um, verður mikið æstur, geispar eða reynir að komast úr aðstæðunum á annan hátt.


Vegna alls þessa, verð ég mjög ánægð þegar fólk biður um leyfi fyrir því að hitta hundinn. Ég segi reglulega nei ef það hentar hundinum mínum illa þann daginn eða þann mánuðinn. En í hvert skipti sem ég segi já, bæti ég við ,,ef að hundurinn leyfir það‘‘ eða ,, ef að hundurinn hefur áhuga á því‘‘. En það veldur því að fólk verður aðeins meira varfærið í aðstæðunum og veður ekki jafn hratt og óvarkárt í hundinn. Einnig getur maður um leið bent fólki á að hundurinn hafi áhuga eða ekki áhuga á að hitta manneskjuna út af því að hann gerði þetta sem þýðir þetta. Skora á ykkur að aðstoða sem flesta við að kynna sér tungumál hunda svo að sem flestir hundar geti upplifað virðingarríkara líf og samskipti, þó það sé í framhjáhlaupi í göngutúr. Til umhugsunar Hvernig bregst hundurinn þinn við hreyfiáreiti? T.d. hestum, hundum, fólki, vespum, hjólum. Fer hann á bakvið eitthvað í göngunni og horfir á hlutinn þaðan? Fer hann út fyrir stíginn til að mynda ögn meira pláss á milli sín og áreitisins? Hægir hann á sér? Sest hann niður og horfir? Þetta og margt fleira eru góðs viti því þessar hegðanir eru náttúrulegar hegðanir fyrir hunda til að takast á við áreiti. Á þennan máta finnst þeim þeir öruggari og þeir benda áreitinu á að þeir séu engin ógn. Þá verða samskiptin betri og dregur úr stressinu og stresseinkennum. Þar af leiðandi er jákvætt að nýta sér náttúruleg umhverfi fyrir göngutúra. Þeir sem ganga í íbúðahverfum geta nýtt sér að ganga út fyrir stíginn og njóta meira þefs og fjarlægðar frá áreitinu. Hundar sem eru stressaðir þurfa meiri svefn heldur en hundur sem ekki glímir við slíkt. Hundar sem glíma við langvarandi stress og kvíða geta þróað með sér líkamleg einkenni og jafnvel sjúkdóma. Ef hundurinn þinn glímir við mikinn kvíða/stress getur hjálpað að hafa samband við fagaðila til ráðgjafar og aðstoðar.

Recent Posts

See All

コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page