Að ferðast með hund
top of page

Að ferðast með hund innanlands

Updated: Nov 21, 2020


Hundar eru almennt taldir hluti af fjölskyldunni en um fjórða hvert heimili heldur hund á landinu. Það getur verið afar skemmtileg upplifun að geta tekið hundinn með í ferðalagið. Að geta hvílt sig saman í gróðursæld eða horft á hundinn leika sér í mosavaxinni lækjarsprænu, getur sett punktinn yfir i-ið í fríi landsmanna. Auk þess er fátt betra en að vakna með besta vininn sér við hlið og geta nýtt fallega íslenska náttúru til samveru og útivistar.


Hundafólk getur átt miserfitt með að taka hundinn með í fríið og eru þá nokkrir valkostir í boði fyrir þau. Ef hundur á mjög erfitt með að vera í bíl þá væri líklega betra fyrir hann að fá að vera í gistingu frekar en að ferðast langar vegalengdir um landið með fjölskyldunni sinni.

Hægt er að panta gistingu á hundahóteli, í heimagistingu eða biðja ættingja/vini um að passa hundinn fyrir sig. Fyrir þau sem hafa aðstöðu til, er gjarnan gott fyrir hundinn að geta verið í sínum heimilisaðstæðum og fá pössunina heim til sín. Þá er minna rót á litla kút sem finnst nægilega erfitt að mannfólkið sitt skelli sér af bæ. Það næst besta í stöðunni er að næla sér í heimapössun á rólegu heimili sem hentar þörfum hvers og eins hunds.

Hér eru þrjár slóðir á síður sem safna saman upplýsingum um hundapössun: http://www.dyrapossun.is/ https://www.hundasamfelagid.is/thjonusta/possun/ https://www.facebook.com/groups/685149295328183




Fyrir þá hundaeigendur sem að eiga þess valkost að taka besta vininn með í ferðina, getur það verið dásamleg upplifun. Til að stuðla að góðri ferð þarf að huga að ýmsum þáttum bæði fyrir okkar þægindi og þeirra.

Fyrsta verkefnið sem þarf að huga að, áður en lagt er af stað, er hvar sé leyfilegt að gista með hund. Líkt og þekkt er, leyfa ekki öll tjaldsvæði, gististaðir, sumarbústaðir né hótel hunda. Því er mikilvægt að athuga vel með hvort að hundar séu leyfðir og hvort það sé háð einhverjum skilyrðum. Er það einungis ákveðin herbergi, svæði sem hundar mega vera á eða allur gististaðurinn henti fyrir hunda? Skilyrðin eru stundum að hundar eigi að ganga inn um sér inngang, eigi að vera í búri inn á herberginu og megi ekki fara framm nema til að fara út ofl. Algengt er að aukagjöld séu fyrir þá sem gista með hundana sína og því gott að muna eftir því þegar hugað er að fjármögnun ferðar innanlands. Þar sem sumir hundar eiga erfitt með að vera til lengri eða styttri tíma í búri er mikilvægt að kynna sér vel reglurnar áður en lagt en pöntuð er gisting. Hver og einn þarf því að athuga það fyrirframm hvort að slíkt sé og hvort það henti hundinum sínum. Í þeim tilfellum sem ákveðið er að fara í gistingu þar sem hundurinn þarf að vera mikið í búri eða mikið í búri í bílnum, er mjög gott að æfa hundinn við búr heima við fyrir ferðina. Á þann máta er hægt að undirbúa hundinn í rólegheitum í þægilegum aðstæðum við að þurfa að vera í búri til lengri tíma.

Þeir sem hafa hugsað sér að tjalda með hundinn sinn í fyrsta skipti þurfa að hafa það í huga að hundurinn heyrir vel allt sem er að gerast í kringum tjaldið og gæti þótt það erfitt. Einnig getur hundinum einfaldlega þótt það erfitt að tjaldið er allt öðruvísi en hans venjulega heimili. Tjaldið er úr öðruvísi efni en hann er vanur að sitt heimili er úr. Það heyrist í tjaldefninu í vindinum og í rigningunni, það er öðruvísi lykt af því, minna pláss fyrir hvern og einn einstakling og svo framvegis. Þegar gististaður er valinn er mikilvægt að hugsa um umhverfið við gististaðinn. Hentar umhverfið vel fyrir hundinn að skjótast út að pissa? Flestum hundum hentar best að gista á stöðum sem eru gróðursælir, með meðalmikið af lykt til að njóta og sem minnst af áreitum. Þeir hundar sem þola frekar mikið af áreitum dags daglega gætu átt erfitt með að kljást við jafn mikið áreiti þegar þeir eru á ferðalagi. Það er vegna þess að hundurinn er að upplifa margt nýtt á hverjum degi og veit aldrei við hverju hann á að búast við að sjá eða gera næst.




Bílferðin

Hundar eiga misauðvelt með að vera í bíl á ferð og/eða í kyrrstæðum bílum. Til að gera bílferðina sem auðveldasta er gott að leyfa hundinum að hreyfa sig vel fyrir ferðina og hafa þá margt skemmtilegt að þefa af í göngunni. Munum eftir köldu vatni fyrir bílferðina, sniðugt að hafa kælimottu og fyrir suma hentar að hafa eitthvað að naga á ferðinni. Þegar lagt er í hann er gott að vera búin að ákveða staði sem hentar fyrir hundinn á stoppa á og taka sér pásu frá bílferðinni. Aðeins að teygja úr sér og komast á klósettið. En aðstæður sem valda þeim óþægindum eða kvíða eykur þörfina gjarnan á að þurfa að komast á klósettið. Ef þeir komast reglulega á klósettið hjálpar það þeim að slaka betur á í bílnum. Til að mynda er góð regla fyrir þá sem keyra frá höfuðborgasvæðinu með hvolpa, að fyrsta stopp sé í Hveragerði, ef ekki fyrr fyrir suma. Gefum þeim vatn þegar við stoppum og leyfum þeim að þefa. Því rólegri sem við erum og leyfum þeim aðeins að slaka á, því líklegra er að restin af bílferðinni verði slakandi upplifun fyrir hundinn 😊

Hvernig hundar eru staðsettir í bílum er æði misjafnt en mig langar að vara við að leyfa hundum að setja höfuðið út um gluggann. En aðalástæðan fyrir því er hættan á að hundurinn fái eyrnabólgu eykst þegar hundar setja höfuðið út um glugga á bíl á ferð. Einnig höfum við það auðvitað í huga að hundur með höfuðið út um glugga á ferð, gæti átt á hættu að rekast í annan bíl sem við sjáum ekki koma.

Til að undirbúa hundinn að takast á við þær aðstæður sem hann verður í ef ákveðið er að fara í tjaldferðalag er gott að æfa hann heima í rólegheitum.

Að æfa sig að vera í tjaldi/fellihýsi/tjaldvagni.

- Tjalda tjaldinu og leyfa þeim að þefa af því í rólegheitum. Skoða tjaldið á þeirra eigin forsendum þegar þeir eru tilbúnir, ekki ýta á eftir þeim né lokka að tjaldinu.

- Leyfa tjaldinu að vera úti í garði í nokkra daga svo hundurinn fái mörg tækifæri til þess að skoða tjaldið og heyra hljóðin í alskonar veðri, sem tjaldið getur gefið frá sér. Á þann máta getur hann byggt upp sjálfstraust í kringum tjaldið í rólegheitum og engin þörf á að við séum að ýta á eftir honum að venjast tjaldinu 😊 Munum að festa tjaldið vel niður svo að það hreyfist ekki of mikið og valdi því að hann verði óöruggur ef að tjaldið færist skyndilega of mikið til á einhvern máta.

- Þegar hundurinn hefur vanist tjaldinu vel til lengri tíma er sniðugt að kíkja inn í tjaldið sjálf og athuga hans viðbrögð við því. Hvort honum lítist á að kíkja inn sjálfviljugur til okkar eða hvort hann sé að forðast að fara inn í tjaldið.

- Á þessu stigi þarf að venja hundinn við að þið ætlið að hafa það rólegt og náðugt í tjaldinu. Undirbúðu tjaldið svo að hundurinn geti hvílt sig inn í tjaldinu á einhverju sem hann er vanur að hvílast á t.d. mottunni sinni. Fyrir marga hunda er einnig gott fyrir þá að hafa eitthvað með sér inn í tjaldið til að róa sig niður til að mynda nagbein, frosið kong eða annað róandi. Þegar búið er að huga að þessum þáttum er farið inn í tjald og hundurinn eltir inn í tjaldið eða beðinn um að koma með og gefinn nammibiti fyrir. Svo komið þið ykkur vel fyrir og hafið góða gæðastund saman. Hann að naga eða sofa, þú að lesa eða annað rólegt svo hann truflist ekki í æfingunni.

- Það sem þarf að huga að þegar æft er inn í tjaldi eru áreitin sem hundurinn gæti heyrt í. Hvernig ætlið þið að tækla það? Hvaða aðferð þið notið fer eftir hundinum sjálfum, hans tilfinningum gagnvart áreitinu og svo framvegis. En í megindráttum er gott að takast á við það á sem rólegastan máta og hægt er. Talið mjög rólega til hundsins og bendið honum á að allt sé í lagi og að þið hafið tekið eftir hljóðinu. Ef að þið ætlið að hreyfa ykkur gerið þið það rólega til að sýna hundinum að ekkert hættulegt er á ferð. Hraðar hreyfingar og hávær málrómur hjá okkur getur valdið þeim óþarfa áhyggjum. Einnig er hægt að lauma að honum smá nammibita ef það hentar hundinum.




Undirbúningur fyrir ferðalag með hund

  • Klippa klær og snyrta þær vel

  • Greiða feld og mögulega athuga hvort að hann sé ekki pottþétt laus við mýtil eða sár í húð.

  • Bursta tennur ef hann hefur verið vaninn við það.

  • Gefa vel að drekka.

  • Fara í góðan göngutúr fyrir bílferðina svo hundurinn geti slakað á. Þá er einkar mikilvægt að göngutúrinn hafi innihaldið mikið af þefi til að róa huga hundsins fyrir bílferðina svo hann sé sáttur á líkama og sál/huga.

  • Hafa góðar merkingar á hundinum ef hann myndi týnast.

  • Taka auka beisli og auka taum með ef það blotnar mikið eða verður skítugt.

  • Sniðugt fyrir stressaða hunda er að setja sveitta flík af eiganda sínum í bílinn á þann stað sem ætlast er til að hundurinn sé.

  • Hvernig ætlið þið að ferðast um með hundinn í bílnum? Hafið þið skoðun á því fyrirframm hvar hundurinn á að vera í bílnum? Af hverju þar? Búnaður til að passa upp á öryggi hunda hefur aukist jafnt og þétt yfir árin. Í dag er hægt að kaupa búr, bílbelti, bæli með háum köntum ofl. Sumir kjósa að hafa hundinn lausan í bílnum eða einhvern kostana hér að ofan. Það sem huga þarf helst að við val á aðstæðum hundsins í bílnum er öryggi við árekstur og andlegt jafnvægi hundsins við bílferðir.

  • Muna eftir lyfjunum og að hafa pantað nóg fyrir ferðina og nokkra aukadaga til að vera viss um að ekkert komi nú upp á. Muna eftir fóðri og nóg af þeirri týpu sem hann þolir.

  • Ef að ferðast á með hundinn í búri er mikilvægt að skorða búrið vel af svo það hreyfist sem minnst fyrir þægindi hundsins en aðallega svo að búrið sé sem öruggast ef að eitthvað kemur upp á. Gott er að festa það niður með krækjum. Öruggustu bílabúrin á markaði á Íslandi í dag eru almennt talin vera Mimsafe búrin.

  • Reyna að hafa ferðadaginn sem rólegastann, að hundurinn æsist ekki upp þegar verið er að fara með allt dótið í bílinn framm og til baka. En það er svolítið skrýtin hegðun fyrir hundinum 😊

Listi yfir hlutina sem gott er að taka með

· Vatnsskál og matardallur. Ef þið ætlið í mikið af göngum er gott að hafa samanfellanlega skálar. Mjög mikilvægt að hundurinn hafi aðgang að nægu vatni í bílnum því lítið loftstreymi er í bílum og mun heitara fyrir þeim en okkur. Hægt er að kaupa skál sem hengd er á grindarbúr og önnur búr.

· Vatn og fóður. Nóg af vatni fyrir göngur og bílinn.

· Nammibita fyrir duglegan ánægðan hund 😊

· Leikföng

· Bæli og/eða búr sem þau þekkja, henta mörgum hundum vel til að slaka á í ókunnugum aðstæðum.

· Kælibæli/kælimotta. Sniðugt að hafa kælimottu í bílnum svo hann geti kælt sig niður og yfir daginn og kvöldin ef hann vill.

· Skyggingu á gluggana, hengilás op fyrir skott eða grind fyrir glugga til að opna vel þegar bílnum hefur verið lagt.

· Lyf, vaselín til að stöðva blæðingu, sárabindi/teygjubindi. Prokolin ef hundurinn er gjarn á að fá magavandamál. Hundakæfu/hundadósamat ef erfitt er að fá hann til að borða. Einnig er gott að vera með almennt hundaskyndihjálparsett með.

· Kong eða annað nagdót. Nagbein. Sniðugt að frysta Kong fyrir ferðina og taka með í bílinn. En ekki of mikið af nammi í því svo hann fái ekki í magann á leiðinni 😉

· Bursta, tannbursta, naglaklippur, naglaþjöl, mýtiltöng.


Aðrir skemmtilegir og afar gagnlegir aukahlutir til að taka með

- Sjálflýsandi vesti, sjálflýsandi taum, hálsól, ljós.

- Hundabakpoka til að hann geti haldið á smá fyrir sjálfan sig.

- Samanbrjótanlegar hundaskálar.

- Sérstakar hundablautþurrkur ef á þarf að halda.

- Blauta tusku ef þörf er á að þrífa hundinn smá.

- Handklæði fyrir hundinn ef það rignir eða hann skellir sér í drullupoll.

- Hundaföt ef hundinum er gjarnt á að verða kalt eða er að fara á svæði sem eru köld. Regnföt fyrir þá hunda sem vilja ekki verða of blautir í rigningunni. Sæng eða teppi fyrir hundana yfir nóttina því þeim getur orðið kalt á íslenskum sumarnóttum.

- T-touch bönd eða thunder jacket fyrir þá hunda sem notast við slíkt. Þá gat ferðalög akkurat verið aðstæðurnar sem hundurinn gæti þurft á því að halda.

- Mittisbelti til að geta tekið vatnsbrúsa, samanbrjótanlega hundaskál, kúkapoka og aðrar nauðsynjar með í göngutúrana. Einnig geta mittisbeltin hentað vel til að geta gengið handfrjáls, sérstaklega ef gengið er með göngustafi. Ég mæli með nonstop mjaðmabeltunum en sérstaklega mæli ég með beislunum frá þeim því þau skerða ekki hreyfingar hundsins, en það er einna mikilvægast að huga að skerðingunni á hreyfingum hundsins þegar hann hreyfir sig til lengri tíma líkt og gjarnan kemur fyrir á ferðalögum. Einnig mæli ég með beislunum sem Garpur selur frá Akureyri því þau fara ekki yfir höfuð hundsins, en margir hundar eru ekki hrifnir af því. Ég er ekki styrkt af þessum merkjum.

- Taka með auka beisli og taum ef eitthvað skemmist eða týnist á ferðinni. Einnig er það mjög gott til að geta skipt um beisli og taum ef þau verða mikið skítug eða gegndrepa í íslenskri rigningu.

- Muna að opna glugga og skott ef bíllinn er stöðvaður svo að hundurinn ofhitni ekki eða eigi á hættu að fá sólsting. Þá er gott að eiga til grind fyrir gluggana ef að gluggarnir eru opnaðir vel, bæði svo að hundurinn komist ekki út og svo að fólk fari ekki með hendurnar inn fyrir. Hægt er að kaupa lykkjur til að hafa skottið opið án þess að opna það upp á gátt, en það getur hentað vel svo að hundurinn verði fyrir minna áreiti en ef skottið væri galopið. Einnig er gott að muna alltaf eftir kælimottu og nóg af vatni.


Að lokum vil ég minna á að líkamlegt og andlegt heilbrigði hundsins skiptir miklu máli þegar hugað er að ferðalögum eða gistingu. Ekki má gleyma því að í sumum tilfellum er mælt gegn ferðalögum fyrir hundinn af dýralæknum eða hundaatferlisfræðingum. Hér eru nokkrir hlutir sem þarf að hugsa um áður en tekin er ákvörðun um að fara í ferðalag með hundinn út frá heilbrigði og mögulegri umgengni við aðra hunda.

Má hundurinn þinn ferðast? Er hann búinn að fá sínar sprautur, ormahreinsun og er við góða heilsu? Er hundurinn þinn haldinn miklum kvíða? Þá getur verið gott að hugsa um hvað sé best að gera í stöðunni, taka hundinn með eða finna gistingu fyrir hann á rólegu heimili. Einnig getur verið gott að ræða hvað sé best fyrir hundinn við dýralækni, hundaatferlisfræðing eða annan einstakling sem er vel að sér.

Þau sem elska að taka myndir af hundunum sínum, endilega merkja þá með #hundalífstíll eða einhverju skemmtilegu sumarmerki líkt og #hundalífstíll #hunduríferðalagi #dogsoficeland #hundaferðalag. Eða einhverju sniðugu sem ykkur dettur í hug 😊 Verum sýnileg og ábyrgir hundaeigendur til að stuðla að bættri hundamenningu á Íslandi og skilningi fyrir besta vininum <3

Recent Posts

See All
bottom of page