Hver eru einkenni aðskilnaðarkvíða, af hverju koma þau fram og hvernig vinnum við með kvíðann?
Algengari en þú heldur!
Um 20-40% hunda mun yfir lífsleiðina fá aðskilnaðarkvíða. Þar sem það er gríðarlega hátt hlutfall og rakkar eru aðeins gjarnari á að þróa með sér röskunina er mikilvægt að vita hvað við getum gert til að fyrirbyggja að hundurinn þrói með sér kvíðann. Einnig hvað hægt er að gera ef hann er nú þegar með aðskilnaðarkvíða og af hverju kvíðinn kemur fram.
Fyrirbyggjum aðskilnaðarkvíða strax hjá hvolpum
Um leið og við fáum hvolpinn/hundinn hljótum við tækifæri til að byggja upp góðar reynslur og lærdómstækifæri. Peeka-Boo Fyrir hvolpa er mikilvægt að byrja á byrjuninni, að þeir fái að átta sig á að hlutir hverfi en komi alltaf aftur til baka. En líkt og hjá börnum fæðast þeir ekki með skilning á því að hlutir og fólk komi til baka og verða því hissa. Það er gert með Peeka-boo æfingum líkt og við börn. Til að mynda að setja hendur fyrir framan andlitið og svo birtist það þegar lófinn er tekinn frá. Einnig að fara á bakvið hurð og svo birtist maður aftur.
Aðskilnaðaræfingar Svo er farið í grunn aðskilnaðaræfingar sem hentar hundum sem eru ekki með kvíða heldur eru að kynnast aðskilnaði í fyrsta sinn. Hjá ungum hundum er hægt að fara ögn hraðar í gegnum æfingarnar heldur en með fullorðnum hundi vegna aðlögunarhæfni hvolpanna. En þrátt fyrir það, ber alltaf að varast því að fara of hratt eða taka of stór skref við þjálfunina. Umhverfisþjálfun hefur áhrif Að einbeita sér að mikilvægustu atriðunum fyrir hæfni og lífsgæði hvolpsins seinna meir skiptir gríðarlega miklu máli til að draga úr líkum á að hundurinn þrói með sér kvíða. Tengsl eru á milli uppbyggilegrar umhverfisþjálfunar og minni líkum á þróun aðskilnaðarkvíða og því mikilvægt að huga að því fyrstu mánuðina og árin. Munum að umhverfisþjálfun er langtímaverkefni þar sem áhersla er á gæði og fremur styttri tíma þar sem hundurinn er vel undir streituþröskuld og lesið er í merkjamál til að byggja upp góðar minningar tengdar áreitum.
Af hverju þróa hundar með sér aðskilnaðarkvíða
Hér spila margir þættir inn í og er ekki vitað nákvæmar ástæður fyrir því að þeir þrói með sér aðskilnaðarkvíða þó að margar vísbendingar séu til staðar. Ljóst er að samspil ýmissa þátta sé til staðar sem geti aukið eða minnkað líkur á að hundar þrói með sér kvíðann.
Hundum er óeðlilegt að vera einir og haga lífi sínu ekki á þann máta að neinn sé einn eftir í náttúrunni né myndu fæstir hundar kjósa það ef þeir réðu. Hinsvegar er raunveruleiki okkar sá að við þurfum oft á tíðum að skilja hundana okkar eftir til að geta tekið þátt í samfélaginu og verið góðir hundaforeldrar. Þar sem þetta er þeim óeðlileg hegðun krefst það enn meiri gætni af okkur að taka lítil framfararskref við þjálfun þar sem æfingarnar geta auðveldlega verið kvíðavaldandi fyrir hundana.
,,Ljóst er að samspil ýmissa þátta sé til staðar''
Erfðir
Sumir hundar eru líklegri til að þróa með sér kvíðann vegna erfða. Einnig hefur meðganga móður og þegar hvolparnir eru á spena áhrif á hversu næmir þeir geta verið fyrir streitu seinna meir, sem talið er að geti átt þátt í hvort þeir þrói með sér kvíðaröskun líkt og aðskilnaðarkvíða.
Umhverfi
Líkt og hjá mönnum hefur umhverfið sem hvolpar alast upp í líklega mun meiri áhrif en okkur órar fyrir á hvernig þeir takast á við mótlæti í lífinu. Við vitum að hundar sem eiga erfiða reynslu á bakinu eru líklegri til að þróa með sér aðskilnaðarkvíða en af hverju það er nákvæmlega er eftir að skoða betur.
Mögulega er það af svipaðari ástæðu og hjá fólki. Við getum verið verr til þess fallin að takast á við erfiða reynslu á fullorðins árum ef við erum buguð eftir margar erfiðar lífsreynslur í barnæsku. Streituglasið okkar getur ennþá verið vel fullt og ekki mátt við fleiri atriðum sem valda okkur áhyggjum.
Aðstæður
Þekkt er að kvíði hunda geti sprottið fram eftir margra ára hlé einkenna eða leiðbeinendur hafi aldrei orðið vör við kvíða hjá hundinum fyrr en að einn daginn hann geri vart við sig. Stórir atburðir í lífi hundsins geta aukið líkur á að hann sýni einkenni aðskilnaðarkvíða. En þeir atburðir sem við lítum á sem stóra eru það oft einnig fyrir hundana okkar svo sem andlát gæludýrs/náins aðstandenda, skilnaður og alvarleg veikindi á heimilinu. Það sem gleymist gjarnan er að atburðir sem við hugsum ekki út í hafa áhrif á hundana okkar. Eins og að flytja í nýtt hús getur verið gríðarlega mikið aðlögunarferli fyrir hundinn sem er vanur því að vera öruggur á gamla heimilinu. Ef við erum heppin, líður hundinum betur á nýja staðnum og finnst aðskilnaður í nýja húsinu auðveldari. Aðrir atburðir sem gleymast gjarnan sem eru stórir í augum margra hunda: sambandsslit, fæðing barna, breyting á rútínu, ferðalag, fara í pössun ofl.
,,atburðir í þeirra lífi geta aukið líkur á aðskilnaðarkvíða líkt og sambandsslit eða nýtt hús''
Engin tækifæri
Ef þeir fá ekki næg tækifæri til að æfa sig í pínulitlum skrefum að vera einir geta þeir þróað með sér aðskilnaðarkvíða þar sem þeir þekkja ekki það að vera einir.
Of stór skref við þjálfun
Frekar algengt er að fólk átti sig ekki á hversu lítil skrefin þurfa að vera við þjálfun til að aðstoða hundana í að skilja að aðskilnaður sé í lagi. Notast er við afnæmingu og því mikilvægt að fylgjast vel með merkjamáli hundsins í æfingunum og hætta ef hann sýnir einkenni um streitu. Til þess að þeir geti lært að líða vel einir heima er mikilvægt að byggja upp þægindarþröskuldinn smám saman. Oft heyri ég fólk kasta fram að láta hvolpinn vera einan fyrst í 5 mínútur og síðan í 10 mínútur. Þar er ekki verið að taka inn í merkjamál og líðan hundsins sem er mikilvægasti parturinn af aðskilnaðarkvíðaþjálfun og fyrirbyggingu.
Það er áhættusamt að byrja með hvolp sem hefur enga reynslu af aðskilnað í því að vera í 5 mínútur einn heima og 5 mínútum lengur við næstu æfingu.
,,Þar er ekki verið að taka inn í merkjamál og líðan hundsins''
Auðvelt er að skemma fyrir sér með því að taka svo stór skref og mun betra að nýtast við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á aðskilnaðarkvíða hunda og nýtast við sekúndur þar sem horft er í merkjamál hundsins og æfingin stöðvuð ef honum líður illa.
Mikilvægt atriði
Vertu með æfingaráætlun. Ekki ákveða á staðnum hvað þú ætlar að vera lengi úti. Það eykur líkur á ''þjálfunar græðgi'' þar sem farið er fram úr getu hundsins. Fylgdu áætluninni fremur en að taka sénsa. Við viljum auðvitað öll halda æfingu áfram þegar hún gengur vel, en það gæti breyst snögglega og aukið líkur á að þú svindlir einnig á næstu æfingu og aukir tímalengd of mikið.
,,eykur líkur á ''þjálfunar græðgi'' þar sem farið er fram úr getu hundsins''
Einkenni aðskilnaðarkvíða
Eru oft á tíðum vægari en fólk gerir sér grein fyrir. Alvarlegasti kvíðinn getur verið í formi spangóls, gelt, eyðileggja sófann, tæta kodda, pissa inni, hlaupa út um allt á fullu.
En flestir hundar sýna kvíðann sinn með öðru atferli líkt og að ganga um gólf, stara á hurðina, sleikja út um, væl og almennt að geta ekki hugsað um neitt annað en hurðina. Þeir slaka ekki á eða geta einungis slakað á í x tíma þar til þeir geta ekki meir og byrja að hafa áhyggjur af því að vera einir.
Hverju mæli ég með?
- Pínulítil skref í sekúndum talin - Vera búin að ákveða áður hver tímalengdin er - Æfa fyrst Peeka-Boo með hvolpa og svo almennar aðskilnaðaræfingar auk þess að leggja áherslu á umhverfisþjálfun - Hlusta á hlaðvarpið hjá kennaranum mínum ,,Be right back'' með Julie Naismith - Lesa bókina ,,Be right back'' með Julie Naismith til að taka uppbyggileg skref - Leita sér aðstoðar atferlisráðgjafa með aðskilnaðarkvíðamenntun t.d. hjá okkur, ef þið eruð óviss
Við aðskilnaðarkvíðaþjálfun er ekki mælt með því að notast við nammi.
コメント