Sissa hjá Hundalífstíl

Mar 17, 20204 min

Ég er leið á að hundurinn gelti í göngu!

Updated: Dec 1, 2020

Þetta er líklegasta algengasta ástæðan fyrir því að fólk kemur með hunda í atferlisþjálfun. Að verða þreyttur á endalausu gelti hundsins er afskaplega eðlileg tilfinning. We have all been there! Ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu. Það er alltaf erfitt að reyna að aðstoða hund sem geltir mikið þegar maður er sjálfur orðin úrvinda á ástandinu. Þá er tilvalið að leita aðstoðar fagmanns sem koma ferskir inn í aðstæðurnar og geta bent ykkur á hluti sem þið hafið mögulega ekki tekið eftir áður. Aðferðir sem að hægt er að nýta eða aðstoða fólk við að hugsa vandamálið út frá öðru sjónarhorni.

Ef að hundurinn geltir á flest sem hreyfist, á allt og alla, daginn inn og út, þarftu að hugsa um að fjárfesta í þó nokkrum tímum hjá atferlisfræðingi. Ef þú átt hins vegar hund sem geltir og togar þegar hann sér hunda í göngutúr, en ekki ef hann fær að hitta hundinn, gætir þú mögulega samt sem áður verið að glíma við jafn flókið vandamál og sá sem á hund sem geltir stanslaust. En það er vegna þess að hundar eru einstaklingar, en einstaklingar takast á við aðstæður og vandamál á mismunandi máta. Sumt fólk bælir niður vandamálin og þegja yfir þeim, aðrir naga neglurnar, sumir vilja tala mikið um vandamálið til að vinna sig úr því og svo mætti lengi telja. Þess vegna þurfum við að hugsa um heildarmyndina hjá hverjum og einum hundi, sama hvað við erum að eiga við. Í raun er erfitt að aðstoða hund einungis með að gelta minna, því hann þarf aðstoð með tilfinninguna á bak við geltið. Aðstoð við að slaka á í tilteknum aðstæðum.

Hvað er hægt að gera í því að hundurinn geltir í göngu á hunda?
 
Hundar eru alla jafna með stærra persónulegt svæði en mannfólk og vilja því vera ögn fjær okkur en við værum með mennskum göngufélaga. Því er um að gera, ef maður sér að manneskja nálgast með áreitið t.d. hundinn, að byrja að undirbúa sig strax. Passa að hundurinn sé ekki of langt frá þér, svo að þú ráðir við aðstæður og hann finni fyrir því að þú styðjir hann og ætlir að aðstoða hann við þessar aðstæður sem þið stefnið í. Að þú sért til taks hvað sem komi upp á og takir ákvörðun fyrir ykkur bæði ef á þarf að halda.

Svo er gott að taka næsta skref sem væri að búa til eðlilegri aðstæður fyrir hundinn. Það eru óeðlilegar aðstæður fyrir hundinn að ætla að ganga beint að öðrum hundi = göngustígar geta verið óþægilegir þegar mætt er öðrum hund. Það er mjög ókurteist og ógnandi fyrir hund A að ganga beint fram á hund B, og því getur það gert aðstæður mun verri fyrir hund sem nú þegar á í erfiðleikum með aðstæðurnar. Því er tilvalið að taka smá sveig út af stígnum eða fara annan slóða á krossgötum þegar þú sérð í hvað stefnir. Það gefur hundunum eðlilegar aðstæður þar sem þeir geta átt samskipti með kurteisislega fjarlægð á milli sín.

Annað sem hægt er að gera, er einfaldlega að athuga með gönguleið sem hentar betur hundinum. Já gönguleiðir skipta nefnilega gríðarlega miklu máli fyrir hunda. Þeim þykir alla jafna óþægilegt að ganga á engi þar sem ekkert er til að skýla þeim frá mögulegum hættum, eða ganga á stöðum þar sem enginn stígur er, því það meikar ekki sense fyrir þá. Hundar vilja að allt meiki sense ;)
 
Er of lítið af lykt fyrir hundinn að þefa af á þessum stöðum, eða of lítið af trjám, steinum eða öðru sem hundurinn getur skýlt sér á bak við í slíkum aðstæðum? Er hundurinn að þefa í göngutúrnum eða er hann að drífa sig rosalega? Mikilvægt er að aðstoða hunda við að uppgötva nefið sitt því það aðstoðar þá svo mikið að róa sig. Að fá verkefni sem er skemmtilegt, að læra að lesa fréttablaðið sitt með öllum þessum upplýsingum um alla merkishundana :)

Af hverju að láta hundinn ekki bara hafa það að fara beint á móti hundi?
 
Því á þann máta verður erfitt að takast á við þann vanda sem þið standið frami fyrir sem gæti mögulega bent til óöryggis í garð ókunnugra hunda eða ókunnugs fólks. Að taka sveig eða taka annan stíg mun ekki skaða þig né hundinn, þið verðið komin heim á svipuðum tíma og þú aðstoðaðir hundinn við að koma sér úr aðstæðum sem hann átti erfitt með. Hér er tækifæri til að byggja upp traust á milli hunds og manns. Hundurinn sér að þú hlustar á hann að honum finnist aðstæðurnar erfiðar og þú ert tilbúinn að aðstoða hann.

Geltið merkir hvað?
 
Geltið sem hegðun við svona aðstæður er gjarnan síðustu möguleg tjáskipti sem hundinum dettur í hug til að láta eiganda sinn vita að honum finnist aðstæðurnar vera of mikið fyrir sig. Þá hefur eigandinn (og já við höfum öll verið í þeim sporum), hunsað óafvitandi skilaboð hundsins um að aðstæðurnar væru svolítið óhugnalegar eða hættulegar að mati hundsins. Hundurinn hefur þá notað sitt tungumál til að láta vita en manneskjan misskilið tungumálið eða ekki áttað sig á að um samræður væri að ræða. Endilega kynnið ykkur tungumál hunda vel. Á ensku: Body language of dogs, eða reading dogs, reading face expressions og svo framvegis.

    5580
    5